15 Mars 2007 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók fjóra karlmenn og eina konu í austurborginni í gær en í vistaverum þeirra fundust ætluð fíkniefni. Talið er að þetta séu 30 gr af kókaíni, neysluskammtar af MDMA og marijúana. Fólkið, sem er allt á þrítugsaldri, var handtekið í kjölfar húsleitar að undangengnum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Fólkið er nú laust úr haldi en rannsókn málsins heldur áfram. Það voru lögreglumenn frá embættum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ríkislögreglustjóra sem tóku þátt í aðgerðinni ásamt lögreglumönnum frá Sauðárkróki.
Í gær handtók lögreglan einnig karlmann um tvítugt í Reykjavík en sá er grunaður um fíkniefnamisferli. Lögreglan fékk tilkynningu frá ónefndum íbúa sem upplýsti um hugsanlega fíkniefnasölu í einu hverfa borgarinnar. Lögreglumenn fóru strax í málið og stöðvuðu hinn grunaða en í fórum hans fannst talsvert magn af ætluðu marijúana. Þetta mál er gott dæmi um þann góða árangur sem samvinna borgaranna og lögreglunnar getur leitt af sér.