28 Mars 2014 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók þrjá karla á þrítugsaldri í tveimur fíkniefnamálum í gær. Tveir mannanna voru handteknir á bifreiðastæði í austurborginni þegar lögreglumenn urðu vitni að sölu fíkniefna. Í framhaldinu var framkvæmd húsleit í tveimur íbúðum í borginni og einum bílskúr, en lagt var hald á um 100 söluskammta af kannabisefnum, auk peninga sem taldir eru vera tilkomnir vegna fíkniefnasölu. Þriðji maðurinn var handtekinn í Kópavogi, en á heimili hans var lagt hald á kannabisplöntur, söluskammta af kannabisefnum og 20 söluskammta af ætluðu amfetamíni.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.