5 September 2014 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á um 350 gr. af marijúana, tæplega 100 e-töflur og lítilræði af amfetamíni við húsleit í þremur fjölbýlishúsum og einni bifreið í Hafnarfirði í gær. Fjórir karlar á þrítugs- og fertugsaldri voru handteknir í þessum aðgerðum, en málin tengjast ekki. Í einu húsanna voru börn á heimilinu og voru barnaverndaryfirvöld upplýst um málið. Til viðbótar þessu hafði lögreglan afskipti af fimm körlum í Hafnarfirði í gærkvöld, en þeir voru stöðvaðir á ýmsum stöðum í bænum. Í fórum mannanna, sem eru á þrítugs- og fertugsaldri, var að finna neysluskammta af MDMA, amfetamíni og kannabis.
Fyrrnefndar aðgerðir eru liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.