9 Júlí 2005 12:00
Kl.15:10 í dag handtók lögreglan á Ísafirði fjögur ungmenni í bifreið á Suðureyri. Grunur hafði vaknað um að ungmennin væru að meðhöndla fíkniefni. Þau voru öll færð á lögreglustöðina á Ísafirði. Í bifreið þeirra fannst ætlað hassreykingaráhald og fleira er benti til fíkniefnameðhöndlunar. Þá fannst í bifreiðinni hafnarboltakylfa. Ungmennin hafa verið til yfirheyrslu hjá lögreglunni á Ísafirði í dag en hefur nú verið sleppt. Einn fjórmenninganna hefur viðurkennt að hafa komið með lítilræði af hassi vestur og notað það sjálfur. Lagt var hald á kylfuna og áhöldin.
Í gærkveldi hafði lögreglan sérstakt eftirlit á Suðureyri í tengslum við hátíðina „Sæluhelgi á Suðureyri“. Þar voru höfð afskipti af nokkrum ungmennum, sem ekki hafa aldur til að kaupa eða meðhöndla áfengi. Lagt var hald á áfengi það er ungmennin voru með í fórum sínum.
Lögreglan mun herða eftirlit sitt á Suðureyri í kvöld. Þar er nú töluverður fjöldi gesta í tilefni hátíðisdaganna.