26 Apríl 2007 12:00
Fíkniefnahundurinn Bea sem er í eign lögreglunnar á Selfossi hefur heldur betur sannað tilverurétt sinn. Þjálfari hundsins Jóhanna Eivinsdóttir ásamt Steinari Gunnarssyni, yfirþjálfara RLS voru við þjálfun í Fjarðabyggð. Lögreglumenn á Eskifirði höfðu í almennu eftirliti stöðvað bifreið. Grunur var um að fíkniefni væru í bifreiðinni. Lögreglumennirnir færðu ökumanninn og bifreiðina á lögreglustöð. Hundateymið var kallað til aðstoðar.
Við leit í bifreiðinni var Bea notuð og fann hún afar fljótt um það bil 29 gr. af hassi. Í framhaldinu var gerð húsleit á heimili hins grunaða manns. Manninum var sleppt að loknum yfirheyrslum.
Það er því ljóst að hér er um mikinn kostagrip að ræða og verður eflaust lögreglunni á Selfossi mikil búbót í baráttunni gegn fíkniefnum.