21 Nóvember 2005 12:00
Þann 14. október síðastliðinn hélt lögreglustjórinn í Reykjavík Böðvar Bragason í heimsókn til Tallahassee höfuðborgar Flórídafylkis í Bandaríkjunum. Lögregluliðin í Reykjavík og Tallahassee hafa verið í stöðugu sambandi frá því að Melvin Tucker þáverandi lögreglustjóri borgarinnar kom til Íslands og hélt erindi á ráðstefnu um fyrirbyggjandi starf lögreglu sem haldin var á vegum Dóms- og kirkjumálaráðuneytisins þann 5. maí 1993.
Samskipti lögregluliðanna tveggja hafa meðal annars falist í gagnkvæmum heimsóknum og er skemmst að minnast heimsóknar Walter McNeil núverandi lögreglustjóra borgarinnar til Reykjavíkur í september 2004. Við það tækifæri bauð hann lögreglunni í Reykjavík að senda tvo menn í þriggja vikna kynnisferð til Tallahassee auk þess sem hann bauð Böðvari Bragasyni lögreglustjóra sérstaklega í heimsókn.
Walter McNeil lögreglustjóri Tallahassee ásamt þeim Böðvari Bragasyni og Geir Jóni Þórissyni
Auglýst var eftir áhugasömum lögreglumönnum til fararinnar og úr hópi 11 umsækjanda voru valdir þeir, Arnar R. Marteinsson aðalvarðstjóri og Þröstur H. Eyvinds lögreglufulltrúi.
Auk Böðvars lögreglustjóra Arnars og Þrastar fóru fjórir lögreglumenn í þessa ferð en þeir höfðu allir farið áður í sambærilegar kynnisferðir til borgarinnar á vegum lögreglunnar í Reykjavík í boði lögreglunnar í Tallahassee, auk þess að hafa farið þangað í viku kynnisferð á eigin vegum í október 2000. Þetta voru þeir Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn, Árni Þór Sigmundsson aðalvarðstjóri, Sveinn Ingiberg Magnússon lögreglufulltrúi hjá RLS og Ólafur Guðmundsson rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni í Reykjavík.
John Marks borgarstjóri Tallahassee ásamt íslensku gestunum
Eins og fyrr segir dvöldu þeir Arnar og Þröstur í þrjár vikur í Tallahassee en aðrir skemur eða í rúma viku. Margt áhugavert bar fyrir augu í ferðinni sem of langt yrði að telja upp hér. Einn megin tilgangurinn með ferðinni var að efla þau tengsl sem myndast hafa milli þessara tveggja lögregluliða á liðnum árum og stuðla að áframhaldi þar á. Ítarleg skýrsla verður rituð um ferðina og mun hún verða kynnt lögreglumönnum síðar.
Vegartálmi og fíkniefnaleit í LaFayette County.