28 September 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík sinnir ólíklegustu verkefnum, bæði stórum sem smáum, eins og sannaðist um kaffileytið í gær. Þá sat liðlega fertugur karlmaður fastur í lyftu í ónefndu fjölbýlishúsi. Hann hafði verið á ferð með tvo hunda og báru þeir ábyrgð á ástandinu.
Þannig var að maðurinn fór inn í lyftuna með hundana með sér. Annar þeirra þoldi ekki við og fór út aftur áður en lyftudyrnar lokuðust. Hinn fylgdi þá í kjölfarið og slapp líka út en sá hundur var með ól og hún flæktist í lyftunni þegar dyrnar á henni lokuðust. Lögreglan kallaði síðan til fagaðila sem tókst að hleypa manninum út. Bæði maðurinn og hundarnir sluppu ómeiddir.