16 Nóvember 2010 12:00
Segja má að það hafi verið fastir liðir eins og venjulega þegar lögreglan heimsótti fulltrúa Kjósarhrepps í Ásgarði í gær. Á árlegum fundi þessara aðila er farið yfir þróun brota á svæðinu og er það jafnan fljótgert. Í þetta sinn var allt með sama hætti og áður enda er lítið um afbrot í Kjósarhreppi. Þó kemur fyrir að innbrotsþjófar leggi leið sína þangað en á fundinum var fólk hvatt til að láta lögreglu vita um grunsamlegar mannaferðir. Það sem fólki kann að finnast lítilfjörlegt getur einmitt orðið til þess að upplýsa mál. Hér er m.a. átt við lýsingu á mönnum og bifreiðum en gott er að skrifa slíkt hjá sér ef fólk tekur eftir einhverju óvenjulegu í sínu nánasta umhverfi. Sama gildir um bílnúmer en slíkar upplýsingar geta komið lögreglu á sporið eins og mörg dæmi eru um.
Margt fleira var rætt í Ásgarði en áhyggjuefni Kjósverja hafa einstaka sinnum verið af öðrum toga en þau sem koma til umræðu á fundum lögreglunnar með lykilfólki í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Þar má t.d. nefna ólöglega meðferð skotvopna og lélegt símasamband, sem er auðvitað áhyggjuefni þegar öryggi íbúanna er annars vegar. Oftar en ekki eru þetta samt sömu málin sem brenna á fólki. Þannig eru t.d. umferðarmál mörgum ofarlega í huga en Kjósverjum hefur stundum blöskrað hraðakstur bifhjólamanna sem fara um Hvalfjörðinn. Ástandið á Vesturlandsvegi er öllu betra en þar er brotahlutfall ökumanna lágt.
Eins og nærri má geta hefur Kjósarhreppur ákveðnu sérstöðu í samanburði við önnur sveitarfélög í umdæmi lögreglunnar höfuðborgarsvæðinu. Bæði er hann víðfemur en jafnframt er ákaflega fámennt í hreppnum en íbúar þar voru tæplega 200 í ársbyrjun. Eftir sem áður kappkostar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að veita Kjósverjum jafngóða þjónusta og öðrum íbúum í umdæminu. Tölfræði frá fundinum í Ásgarði má nálgast hér.
Guðmundur H. Davíðsson, Guðný Ívarsdóttir, Birgir Mikkel Jóhannesson og Árni Þór Sigmundsson.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is