20 Júlí 2008 12:00
Lögreglan á Vestfjörðum handtók s.l. þriðjudagskvöld farandsölumann á Ísafirði sem hafði verið á ferð í byggðarlögum á norðanverðum Vestfjörðum og líklega víðar um land. Maðurinn hafði gengið í hús og boðið til sölu olíumálverk og annan varning. Maðurinn er af erlendu þjóðerni og hefur hvorki dvalar- né atvinnuleyfi hérlendis. Hann er grunaður um að hafa flutt varninginn ólöglega til landsins og skorti hann jafnframt nauðsynleg leyfi til sölumennskunnar. Talið er að atferli mannsins sé m.a. brot á tollalögum, lögum um atvinnuréttindi útlendinga, lögum um verslunaratvinnu og lögreglusamþykkt Ísafjarðarbæjar.
Maðurinn gisti fangageymslur á Ísafirði á meðan mál hans var rannsakað og s.l. miðvikudag ákvarðaði Héraðsdómur Vestfjarða að maðurinn skyldi vera í farbanni til 21. júlí skv. beiðni lögreglustjórans á Vestfjörðum. Lagt hefur verið hald á 905 myndir og muni sem tilheyra manninum auk nokkurs af fjármunum. Rannsókn málsins er lokið og hefur lögreglustjóri þegar gefið út ákæru á hendur manninum fyrir ofangreind brot. Maðurinn er frjáls ferða sinna.