18 September 2024 13:49
Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrir tímabilið janúar til og með júní 2024 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Lögreglan á landsvísu fékk 538 tilkynningar um heimilisofbeldi á tímabilinu sem jafngildir um 90 slíkum tilvikum á mánuði að meðaltali. Tilvik á árinu voru 8% færri samanborið við sama tímabil síðastliðinna þriggja ára.
Helstu niðurstöður eru:
- Tilkynningar um heimilisofbeldi voru 8% færri á árinu samanborið við sama tímabil síðustu þrjú ár
- Um 71% tilvika tilkynnts heimilisofbeldis áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu
- Heimilisofbeldi af hendi maka helst svipaður fjöldi en um fimmtungi færri tilvik voru af hendi fyrrum maka
Heimilisofbeldi eða ágreiningur
Lögreglan skráir jafnframt útköll um ágreining milli skyldra/tengdra aðila þar sem metið er að ekki er grunur um brot. Alls voru 607 tilkynningar um ágreining milli skyldra/tengdra aðila, sem jafngildir að meðaltali um 101 slíku tilviki á mánuði. Það eru jafnframt 3% fleiri atvik samanborið við meðaltal síðastliðinna þriggja ára.
Um 71% heimilisofbeldismála áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu og um 29% mála á landsbyggðinni. Þegar litið er til ágreiningsmála, áttu 37% þeirra áttu sér stað á landsbyggðinni og 63% á höfuðborgarsvæðinu.
Tilvik ofbeldis af hendi fyrrum maka fækkar
Þegar litið er til heimilisofbeldismála, þ.e. tilvika þar sem grunur er um brot á borð við líkamsárásir, hótanir eða eignaspjöll, voru tilvikin 538. Heimilisofbeldi af hendi maka voru 240 sem er svipaður fjöldi og meðaltal síðustu ára, en ofbeldi af hendi fyrrum maka voru fimmtungi færri (↓21%) samanborið við meðaltal síðastliðinna þriggja ára. Þegar eingöngu er litið til ofbeldis af hendi maka/fyrrum maka má sjá að í 8 af hverjum 10 málum var karl gerandi. Brotaþolar í þessum málum voru kvenkyns í 75% tilvika og í fjórðungi mála karlkyns.
Ofbeldi af hendi fjölskyldumeðlims (barn gegn foreldri, foreldri gegn barni, gegn systkini) voru 3% færri samanborið við meðaltal áranna 2021 til 2023 (janúar til júní).
Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Á ofbeldisgátt 112.is má einnig finna nánari upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða.
Skýrslan í heild sinni: Heimilisofbeldi BI skýrsla fyrir ytri vef 2024 (jan-júní)
Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks. Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra. Mikilvægt þykir að skrá bæði ágreining og heimilisofbeldi til að fá heildstæða mynd af tilvikum og hvort tilvik leiði til ítrekaðra og alvarlegri atvika.
Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, helena.sturludottir@logreglan.is eða í síma 444-2570.