8 Ágúst 2024 14:37
Ein stærsta ferðahelgi sumarsins, verslunarmannahelgin, er nú yfirstaðin og þrátt fyrir að veðrið hafi ekki leikið við alla landsmenn þá virðist góð skemmtun ekki hafa verið á undanhaldi.
Heilt yfir gekk helgin mjög vel og lagði lögreglan sig fram við að tryggja öryggi á hinum fjölmörgu viðburðum og skemmtunum sem áttu sér stað hringinn í kringum landið.
Alls komu upp 135 mál á landinu vegna hegningarlagabrota frá fimmtudegi til mánudags samanborið við 173 mál á sama tíma í fyrra. Um helgina voru 48 auðgunarbrot tilkynnt og 37 ofbeldisbrot. Þá komu upp 42 fíkniefnamál, flest þeirra eða 17 á höfuðborgarsvæðinu og 13 í Vestmannaeyjum.
Engin nauðgun hefur verið tilkynnt til lögreglu en það er þó ef til vill of snemmt að fullyrða um þetta þar sem einhver tími getur liðið frá því að nauðgun á sér stað þar til hún er tilkynnt til lögreglu.
Flest ofbeldisbrotanna áttu sér stað á höfuðborgarsvæðinu eða 15 mál, næst flest hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum þar sem átta mál voru tilkynnt og þar á eftir hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra þar sem sex mál voru tilkynnt. Þá voru alls 30 eignaspjöll tilkynnt.
Umferðin gekk að langmestu leyti vel þrátt fyrir að nokkur ölvunarakstursmál hafi komið upp, eða 44, flest hjá lögreglunni á Suðurlandi eða 21 en embættið var með öflugt eftirlit í Landeyjahöfn um helgina. Næstflest mál komu upp á höfuðborgarsvæðinu þar sem málin töldu 11. Alls voru 28 mál vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna þar af voru 16 hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Frá sjónarhóli lögreglunnar má því fullyrða að mikill meirihluti ferðalanga um helgina hafi verið til fyrirmyndar. Þá ber að þakka gott svæðisbundið samstarf á milli lögreglu, viðburðarhaldara og helstu viðbragðsaðila þ.m.t. heilbrigðisstofnanir og félags-, barnaverndar- og frístundarþjónustu einstakra sveitarfélaga.