26 Október 2018 16:29
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu eru enn að berast kvartanir vegna írskra farandverkamanna, sem eru að bjóða íbúum í umdæminu þrifþjónustu, m.a. háþrýstiþvott á hús og bílaplön. Þeir sem kvarta segja farir sínar ekki sléttar og saka mennina um óheiðarleika, en m.a. hefur risið upp ágreiningur um verð fyrir þjónustuna og er farandverkamönnunum borið á brýn að hafa hækkað verðið eftir að verki var lokið og að hafa gengið hart fram þegar rukkað var fyrir verkið. Þess má geta eldri borgarar eru í meirihluta þeirra sem hafa leitað til lögreglu, en þeir segja að veruleg óþægindi hafi fylgt samskiptum við mennina. Svo sem algengt er um sambærileg verk þá er sjaldnast um það að ræða að skriflegir samningar hafi verið gerðir um verkkaup áður en verk var innt af hendi, þótt slíkt kunni að vera æskilegt til að draga úr líkum á ágreiningi síðar. Í öllu falli á verkkaupi rétt á að fá kvittun í hendur þegar greiðsla hefur farið fram, en þeir sem kvartað hafa til lögreglu lýsa því að erfiðlega hafi gengið að fá greiðslukvittun.