21 Janúar 2023 20:23
Miklar leysingar hafa verið á Suðurlandi s.l. sólarhring og ár hafa verið að ryðja sig í samræmi við það. Þannig ruddi Stóra Laxá sig í dag og skilaði vatnið sér niður hjá brúarmannvirkjum við Skeiða- og Hrunamannaveg nú síðdegis, án þess að tjón yrði af enda búið að rjúfa veginn og fór töluverður hluti flóðvatnsins í þá rás.
Mælar í Hvítá, við Fremstaver, sýndu að um hádegið í dag hljóp fram úr stíflu og fór rennslið um stund upp í rúmlega 700 rúmmetra á sekúndu. Rennsli minnkaði síðan strax aftur og er nú í um 400 rúmmetrum. Þetta vatn verður að skila sér fram hjá Selfossi fyrir hádegi á morgun en í kvöld og nótt um Brúarhlöð, Iðu og niður með Hestfjallinu. Til samanburðar má geta þess að rennsli í Öflusá á árinu 2006 þegar flæddi í leysingum fór í um 2500 rúmmetra á sekúndu þegar mest var.
Lögreglan beinir því til almennings að fara varlega á árbökkum í umdæminu því þó nú kólni þá geta krapahlaup verið að skila sér fram næstu daga með tilheyrandi hækkun í ám.