28 Janúar 2010 12:00
Nokkuð er um að bílum sé stolið á höfuðborgarsvæðinu og því vill lögreglan ítreka að þeir séu ekki skildir eftir ólæstir og í gangi. Á þessu virðist vera misbrestur og það færa þjófar sér í nyt eins og nýleg dæmi sanna. Nefna má tvö tilvik um síðustu helgi þar sem ökumenn skruppu inn í fyrirtæki til að sinna erindum en gripu svo í tómt þegar þeir ætluðu að snúa aftur í bílana sína nokkrum mínútum síðar en bæði ökutækin voru skilin eftir ólæst og í gangi. Sama hefur gerst við leikskólana þegar foreldrar eru að koma með börnin sín eða sækja þau. Jafnvel má ætla að þjófarnir sitji fyrir fólki en í gær upplifði kona, sem var að sækja börnin sín í leikskóla, þessa ömurlegu tilfinningu. Bílnum hennar var reyndar ekki stolið því hún drap á vélinni og tók kveikjuláslykilinn með sér þegar hún fór inn í leikskólann. Konan skildi bíllinn hinsvegar eftir ólæstan og það notfærði sér óprúttinn aðili sem stal handtöskunni hennar úr bílnum á meðan. Í töskunni voru m.a. skilríki, greiðslukort, snyrtivörur og ýmsir pappírar. Þjófnaðurinn er því mjög bagalegur fyrir konuna og skapar henni bæði óþægindi og fyrirhöfn.
Vegna þessa minnir lögreglan líka á, enn og aftur, að verðmæti séu ekki skilin eftir í bílum. Sé það óumflýjanlegt er mikilvægt að slíkir hlutir séu ekki í augsýn. Tilkynningar um innbrot í bíla berast daglega og gærdagurinn var engin undantekning. GPS-tæki var á meðal þess sem þjófarnir höfðu upp úr krafsinu en segja má að slík tæki, ásamt kannski fartölvum, séu efst á óskalista þjófa um þessar mundir.