21 Mars 2016 12:46
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir febrúarmánuð 2016 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 607 tilkynningar um hegningarlagabrot í febrúar, sem gerir um það bil 21 tilkynningu á dag. Þar af bárust 63 tilkynningar um innbrot í febrúar. Ekki hafa borist jafn fáar tilkynningar í einum mánuði síðan í febrúar 2014. Tilkynnt var um 18 kynferðisbrot sem áttu sér stað í febrúar sem er nokkur aukning miðað við síðustu mánuði á undan. Það sem af er ári hafa borist færri tilkynningar um kynferðisbrot miðað við meðalfjölda árin 2013 til 2015. Brotum þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna fjölgar á milli mánaða og hefur skráðum brotum fjölgað í hverjum mánuði frá því í október 2015.