26 Júlí 2006 12:00
Allmargir árekstrar urðu í umdæmi lögreglunnar í Reykjavík í gær. Eignatjón var mismikið en mestu skiptir að ekki urðu alvarleg slys á fólki. Það veldur hins vegar miklum áhyggjum að fólk skuli aka undir áhrifum áfengis eða lyfja. Slík var raunin í tveimur umferðaróhöppum í gær. Akstur krefst mikillar einbeitingar og þeir sem hafa neytt áfengis eða lyfja eiga að sjálfsögðu ekkert erindi í umferðina. Gilt ökuskírteini er líka skilyrðislaus krafa en í gær lenti einn próflaus ökumaður í árekstri.
Þá voru ellefu ökumenn teknir fyrir hraðakstur en lögreglan vill brýna það fyrir fólki að fara varlega. Ekki síst í íbúðargötum þar sem leyfilegur hámarkshraði er 30 km. Sérstakt átak er í gangi til að halda niðri hraða þar sem búast má við börnum að leik. Alltof margir ökumenn fara ógætilega í íbúðargötum en slíkur akstursmáti verður ekki liðinn.