19 September 2007 12:00
Ekið var á tæplega tvítuga stúlku á Hringbraut í gærmorgun. Stúlkan var að koma úr strætisvagni þegar óhappið varð en hún fór aftur fyrir vagninn, út á götuna og í veg fyrir umferð. Svo virðist sem stúlkan hafi ekki gætt nógu vel að sér því hún hafnaði á aðvífandi bíl. Stúlkan var flutt á slysadeild en meiðsli hennar virðast hafa verið minniháttar, sem betur fer. Síðdegis var ekið á 7 ára stúlku í Hlíðahverfi en þar fór sömuleiðis betur en á horfðist. Sem fyrr minnir lögreglan alla vegfarendur á að sýna aðgát, ekki síst þegar farið er yfir götu, og hvetur alla til að nota gangbrautir þar sem því verður við komið.
Þrjátíu og átta önnur umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær, langflest minniháttar.