10 Janúar 2008 12:00
Að venju voru nokkur umferðaróhöpp tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gær. Sem betur fer var lítið um slys á fólki en ljóst er að um talsvert eignatjón er að ræða. Um hádegi rákust saman fólksbíll og jeppi í Grafarvogi og er fólksbíllinn jafnvel talinn ónýtur. Ökumaður hans, 17 ára piltur, slasaðist smávægilega en öruggt má telja að bílbelti bjargaði því að ekki fór verr. Á Álftanesvegi varð líka nokkurt eignatjón við aftanákeyrslu þegar 19 ára piltur undir stýri gætti ekki að sér með fyrrgreindum afleiðingum. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild til rannsóknar en ekki er vitað frekar um meiðsli þeirra.