6 Október 2006 12:00
Egg og púðurkerlingar voru meðal þess sem skemmdarvargar beittu í tveimur fjölbýlishúsum í borginni í gær. Síðdegis voru púðurkerlingar sprengdar í póstkassa og hlaust af því nokkuð tjón. Og undir miðnætti var eggjum kastað í stigagangi. Þar beið íbúanna ærin vinna og tilkostnaður við að ná eggjunum úr teppi í sameign.
Þá var tilkynnt um skemmdarverk í undirgöngum. Þar hafði óprúttinn aðili skvett málningu á veggi. Í gær voru einnig unnar skemmdir á tveimur bílum. Rúða var brotin í öðrum en á hinn var límt skilti úr áli. Þá var brotin rúða á skemmtistað en það gerði ungur maður sem var ósáttur þegar honum var vísað á dyr fyrir vafasamt athæfi.