4 Ágúst 2006 12:00
Lögreglan í Reykjavík hefur komið fyrir eftirlitsmyndavél við gatnamót Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar. Þar er unnið að mislægum gatnamótum og af þeim sökum voru settar upp svokallaðar hæðarslár. Á þær hefur verið ekið nánast daglega og af því hefur skapast mjög mikil hætta. Bæði fyrir aðra vegfarendur og ekki síst starfsmenn verktaka sem þarna eru að störfum.
Það eru einkum ökumenn gámaflutningabifreiða sem hafa ekki gætt að sér. Svo virðist sem vagnar þeirra séu einfaldlega of háir til að flytja ákveðnar gerðir gáma. Á þessum tilteknu gatnamótum eru hæðartakmörk 4,2 metrar. Það er einmitt mesta leyfilega hæð ökutækis samkvæmt reglugerð um stærð og þyngd ökutækja. Til að finna hæð ökutækis skal mæla hornrétt frá yfirborði vegar að þeim hluta þess sem hæst stendur.
Með tilkomu eftirlitsmyndavélar á gatnamótum Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar vonast lögreglan til að stemma stigu við þessu vandamáli. Þess skal líka getið að ökumenn sem virða ekki hæðartakmörk eiga sekt yfir höfði sér.