26 Janúar 2015 16:34
Um helgina voru farnar 42 eftirlitsferðir í veitingahús miðborgarinnar þar sem kannað var með aldur gesta, fjölda og leyfi dyravarða og leyfi veitingastaðanna til starfseminnar. Er skemmst frá því að segja að 40 þeirra voru í fullkomnu lagi. Í tveimur tilvikum voru gerðar athugasemdir vegna dyravarða sem strax var brugðist við.
Þó langflestir veitingastaða í miðborginni séu með allt eftirlit og leyfi í lagi þá hefur svo ekki verið á öllum stöðum og á stundum hefur lögregla þurft að loka þeim, m.a. vegna gesta undir aldri sem hleypt hefur verið inn. Engin slík mál komu upp um helgina sem áður segir og fyrir það vill lögregla leyfa sér að hrósa bæði eigendum og starfsfólki.
Hvort bein tengsl séu þarna á milli eða ekki þá má og láta það fylgja með hér að engar líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu í miðborginni um helgina.