3 Febrúar 2012 12:00
Eitt af verkefnum lögreglu er eftirlit með veitinga- og skemmtistöðum en reynslan sýnir að full þörf er á slíku eftirliti. Fyrr í vikunni stöðvaði lögreglan t.d. sölu áfengis á tveimur veitingahúsum í miðborginni eftir að komið var fram yfir leyfðan afgreiðslutíma en á öðru þeirra voru gestir staðarins jafnframt að bera með sér áfengi út af staðnum. Við eftirlit á dögunum bar einnig nokkuð á því að starfandi dyraverðir á veitinga- og skemmtistöðum eru ekki með heimild lögreglustjóra til starfans en allmargir gátu ekki framvísað dyravarðaskírteini þegar eftir því var leitað. Sömuleiðis ber það við að gestir á stöðunum eru of margir miðað við þá heimild sem er til staðar. Áfram verður fylgst með áðurnefndum atriðum en um helgina mun lögreglan jafnframt fylgjast sérstaklega með dvöl ungmenna á veitinga- og skemmtistöðum. Eftirlitið miðar sömuleiðis að því að koma í veg fyrir að ungmennum undir 20 ára sé veitt áfengi en þess eru því miður dæmi.
Sem fyrr hvetur lögreglan rekstraraðila til að fara að lögum því annars geta þeir búist við viðurlögum, t.d. sviptingu eða afturköllun rekstrarleyfis.