4 Maí 2017 10:37
Nagladekk eru farin að vera óþarfur búnaður hér á höfuðborgarsvæðinu enda sumarið farið að gera vart við sig. Næsta mánudag, 8. maí, áformar Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu að fara að fylgjast með notkun nagladekkja og sekta þá sem ekki hafa fært sig yfir á naglalaus dekk. Minnt er á að nú ber að greiða 5 þúsund krónur í sekt fyrir hvert nagladekk, og raunar sömuleiðis fyrir hvern óhæfan hjólbarða eins og það er orðað í reglugerð um sektir vegna brota á umferðarlögum. Ökumenn, sem þess þurfa, eru því hvattir til að gera viðeigandi ráðstafanir og skipta út nagladekkjum ökutækja sinna til að forðast óþarfa kostnað vegna sekta. Þar að auki felst í því yndisauki að losna við glamrið sem fylgir nagladekkjum.