10 Desember 2009 12:00
Tvítugur ökufantur var handtekinn á Ártúnshöfða í nótt eftir að lögreglan hafði veitt honum eftirför. Um var að ræða pilt sem hafði verið staðinn að hraðakstri á Miklubraut við Skeiðarvogsbrúna en bíll hans mældist þar á 114 km hraða og var auk þess næstum ljóslaus. Kauði virti ekki stöðvunarmerki lögreglu heldur jók hraðann og ók áfram Miklubrautina og upp Ártúnsbrekkuna þar sem hann beygði inn í Ártúnsholt. Þar sá ökufanturinn að sér, nam staðar og yfirgaf bílinn og hélt fótgangandi á móts við lögregluna. Pilturinn var handtekinn og færður á lögreglustöð en þrátt fyrir ungan aldur hefur hann alloft áður verið tekinn fyrir umferðarlagabrot.