29 Maí 2007 12:00
Framkoma fólks í miðborginni um helgar er ekki alltaf til fyrirmyndar eins og oft hefur komið fram. Um hvítasunnuna höfðu lögreglumenn í ýmsu að snúast og höfðu þá m.a. afskipti af hálfþrítugum karlmanni sem sýndi af sér mjög vafasama hegðun svo ekki sé nú meira sagt. Sá kastaði af sér þvagi á lögreglubifreið en ekki er vitað hvað manninum gekk til. Hafi honum þótt þetta spaugilegt runnu tvær grímur á manninn þegar hann hafði verið færður á lögreglustöð. Þar bar hann sig mjög aumlega, iðraðist sáran og sá eftir öllu saman. Næturævintýri hans fékk snöggan endir og maðurinn má nú búast við að fá 10 þúsund krónur í sekt en með háttalagi sínu braut hann gegn lögreglusamþykkt Reykjavíkurborgar.