8 Mars 2016 11:25
Iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu 87 í Reykjavík er mjög illa farið eftir bruna í gærkvöld og nótt, en lögreglu barst tilkynning um eld í húsinu kl. 20.14 í gærkvöld. Strax var ljóst að um stórbruna var að ræða og var allt tiltækt lið lögreglu og slökkviliðs kallað á vettvang. Unnið var við að slökkva eldinn fram á nótt, en íbúðir við Snorrabraut 35 og 35a voru rýmdar og leituðu íbúarnir skjóls hjá ættingjum og vinum, auk þess sem einhverjir gistu á farfuglaheimilinu í Laugardal. Rauði krossinn var kallaður til vegna þessa, en einnig var strætisvagn til staðar nærri vettvangi sem hægt var leita skjóls í. Fjarlægja þurfti nokkrar bifreiðar frá vettvangi og var dráttarbifreið kölluð til verksins.
Rannsókn lögreglu á brunanum er hafin, en ekkert liggur fyrir um eldsupptök að svo stöddu. Ekki hefur enn þótt óhætt að fara inn í húsið, en lögreglan og slökkviliðið funda nú um málið og þá skýrist framhaldið frekar. Lögreglan leitar jafnframt upplýsinga um mannaferðir við og nærri Grettisgötu 87 í gærkvöld, en m.a. sást til ferða tveggja manna eftir að eld og reyks varð vart í húsinu en þeir virtust koma þaðan með einhverja hluti í farteskinu. Talið er að annar mannanna hafi haldið á flatskjá. Tveir aðrir menn, sem lögreglan óskar einnig eftir að ná tali af, sáust líka við húsið, en annar þeirra var klæddur stórrri, rauðri eða appelsínugulri úlpu, og gengu þeir út á Rauðarárstíg og síðan eftir honum í suðurátt. Þeir sem búa yfir upplýsingum um mennina, eða annað sem kann að varpa ljósi á brunann, eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 1000, en upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið 9726@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Í iðnaðarhúsnæðinu að Grettisgötu 87 er rekin ýmis starfsemi, m.a. bifreiðaverkstæði og geymslur fyrir ferðavagna. Þá hafa listamenn aðstöðu í húsinu.
Ekki er hægt að skilja við málið án þess að minnast á vegfarendur sem komu á vettvang í gærkvöld og virtu lokanir lögreglu að vettugi og trufluðu störf björgunaraðila. Slíkt er með öllu ólíðandi og raunar skammarlegt.
UPPFÆRT:
Eftir fund lögreglu og slökkviliðs, sem var að ljúka, liggur fyrir að ekki verði farið inn í húsið í dag.
Á því er þó sú undantekning að síðdegis í dag er fyrirhugað að fara í kjallara hússins og fjarlæga bíla og tæki sem þar eru.
Á morgun verða sérfræðingar fengnir til að meta burðarþol m.t.t. frekari aðgerða á staðnum.
Lögreglan vaktar nú vettvanginn og gerir áfram þar til frekari ákvarðanir verða teknar.