5 Apríl 2018 17:22
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur staðið í ströngu í dag, en um 25 lögreglumenn komu að stórbruna í Garðabæ. Karlmaður á fimmtugsaldri var færður á slysdeild, en hann brenndist á vettvangi en var ekki talin vera mikið slasaður. Rýming húsnæðis gekk vel þótt eldurinn hafi breiðst hratt út.
Segja má að allt tiltækt lið lögreglu hafi sinnt lokunum og öðru sem tengdist brunanum, í iðnaðarhúsnæði við Miðhraun. Mikill reykur myndaðist á vettvangi, en sökum eldsmats var hann sérstaklega varhugaverður og þurfti að senda út viðvaranir til almennings um að varast reykinn og grípa til aðgerða ef hans yrði vart, t.d. að loka gluggum og kynda.
Slökkvilið og lögregla nutu aðstoðar Umhverfisstofnunar og Veðurstofu við mat á áhrifum reyks á nærumhverfi. Ekki var talin ástæða til að rýma byggð, þó hús mjög nálægt brunavettvangi hafi verið rýmd. Sendar voru út ábendingar til skóla í Hafnarfirði, en bent var á að ekki væri talin hætta á ferðum, en hyggilegt væri að halda börnum inni í frímínútum og benda fólki á að vera ekki utandyra meira en þörf krefði.
Því miður var mikið álag á viðbragðsaðilum vegna mannfjölda, en margir töldu nauðsynlegt að berja reykinn augum. Þrátt fyrir aðvaranir voru nokkrir sem reyndu að komast undan því að fara af vettvangi, en létu sér segjast eftir skýr fyrirmæli frá laganna vörðum.
Slökkvistarfi er ekki að fullu lokið, en vakt af hálfu Lögreglu og Slökkviliðs Höfuborgarsvæðisins verður á brunastað í nótt, enda geta læðst glæður í rústunum. Rannsókn á upptökum brunans er í fullum gangi en ekki er hægt að gefa neinar upplýsingar um upptök að svo stöddu. Karlmaður var handtekinn vegna gruns um að tengjast upptökum brunans en rannsókn á atvikum hreinsaði hann af öllum grun og var manninum sleppt í kjölfarið.