30 Mars 2012 12:00
Verkefni lögreglunnar eru af ýmsum toga en eitt af þeim tengist hávaða í heimahúsum. Talsvert er kvartað undan hávaða frá gleðskap á höfuðborgarsvæðinu og þá gjarnan um helgar þó slíkt eigi líka oft við hina fimm daga vikunnar. Eina helgina fyrir nokkru barst kvörtun af þessu tagi en þá voru íbúar í ónefndu fjölbýlishúsi orðnir þreyttir á hávaða og látum sem bárust frá íbúð í húsinu þá nóttina. Lögreglan hélt á staðinn og átti allt eins von á því að fjörugt og fjölmennt partí væri þar í gangi. Ekki reyndist það alveg raunin því innandyra voru tvær manneskjur, karl og kona. Um var að ræða brúðhjón en ekki var talið að hávaðann og lætin mætti rekja til ósættis þeirra enda hveitibrauðsdagarnir nýhafnir. Nei, hljóðin í blokkinni reyndust stafa af öðrum athöfnum fólksins. Hér verður ekki farið út í smáatriði málsins en þó má segja að hvílubrögð brúðhjónanna voru ekki refsiverð. Hávaðinn og lætin sem þeim fylgdu kunna þó að hafa verið brot á lögreglusamþykkt en engu að síður var ákveðið að aðhafast ekkert frekar í málinu. Engar frekari kvartanir bárust lögreglu eftir að hún yfirgaf vettvang en hætt er við að brúðhjónin gleymdi seint þessari heimsókn laganna varða.