19 Desember 2007 12:00
Brögðóttur þjófur, vopnaður kústskafti sem á var fest skrúfjárn, var á ferli í morgun og stal veski úr húsi í miðborginni með fyrrnefndu verkfæri. Þjófurinn spennti upp glugga á jarðhæð og krækti í veskið sem var þar á borði innandyra. Tjón eigandans, sem hafði brugðið sér frá stundarkorn, er allnokkuð en í veskinu voru peningar, greiðslukort og snyrtivörur. Í því var einnig iPod-spilari en hann datt sem betur fer úr veskinu áður en því var smeygt út um gluggann. Þjófurinn er ófundinn en að sögn vitna var hann í rauðri hettupeysu.