22 Maí 2006 12:00
Á morgun, 23. maí, verður breyting á afgreiðslu og framleiðslu vegabréfa á Íslandi og er vert að hafa eftirfarandi í huga.
Engin gild vegabréf falla úr gildi þótt farið verði að framleiða nýja gerð vegabréfa.
Afgreiðsla vegabréfa á höfuðborgarsvæðinu verður hjá Lögreglunni í Reykjavík, Borgartúni 7, hjá Sýslumanninum í Kópavogi, Dalvegi 18, og Sýslumanninum í Hafnarfirði, Bæjarhrauni 18. Umsækjendur eru ekki bundnir af því að skila umsókn í sama umdæmi og lögheimili þeirra er.
Myndatakafyrir vegabréfaumsókn telst til öryggisatriða nýju vegabréfanna og fer hún því fram á sama stað og sama tíma og sótt er um án aukakostnaðar. Koma má með eigin mynd en hún verður að vera á rafrænu formi.
Verð vegabréfa helst óbreytt.
Nánari upplýsingar um hin nýju vegabréf er að finna á vef dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og á www.vegabref.is.
Þegar sótt er um vegabréf fyrir barn undir 18 ára aldri skulu báðir forráðamenn mæta til þess að sækja um vegabréf barnsins, – ef annað forsjárforeldra barns getur ekki mætt skal hann/hún rita vottað samþykki sitt á þar til gert eyðublað. Athugið að barn, sem sækja á um vegabréf fyrir verður að fylgja forráðamanni þegar sótt er um.
Umsækjandi vegabréfs skal gera grein fyrir vegabréfum sem hann hefur fengið útgefin og enn eru í gildi. Ef vegabréf sem er í gildi hefur glatast eða misfarist skal umsækjandi fylla út þar til gert eyðublað
Nánari upplýsingar veitir Þjóðskrá í s. 569 2900 og í netfangi vegabref@thjodskra.is og utan opnunartíma veitir Tollgæslan upplýsingar í s. 425 0659. Tollgæslan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sýslumenn, íslensk sendiráð og ræðismenn Íslands erlendis annast útgáfu á neyðarvegabréfum.