30 Ágúst 2023 13:31
- Lögreglunni bárust tilkynningar um 79 nauðganir fyrstu sex mánuði ársins, sem samsvarar 36% fækkun frá síðasta ári.
- Meðalaldur grunaðra 11 árum hærri en brotaþola.
- Ný vitundarvakning gegn stafrænum kynferðislegum samskiptum fullorðinna við börn hafin.
Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um kynferðisofbeldi hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Í skýrslunni má finna upplýsingar um tilkynningar til lögreglu vegna kynferðisbrota fyrstu sex mánuði ársins.
Lögreglan skráði tilkynningar um 79 nauðganir fyrstu sex mánuði ársins 2023, sem samsvarar 36% fækkun frá síðasta ári. Ef borið er saman við sama tímabil síðustu þrjú ár þar á undan þá fækkaði skráðum nauðgunum um 20%. Að meðaltali eru núna skráðar tilkynningar um 13 nauðganir á mánuði hjá lögreglunni.
Aukning tilkynninga vegna kynferðislegra stafrænna samskipta.
Lögreglan skráði í allt 259 tilkynningar um kynferðisbrot á tímabilinu, sem samsvarar 16% fækkun frá síðustu þremur árum þar á undan. Helsta breytingin er fækkun á tilkynntum nauðgunum en tilkynningum um kynferðisbrot gegn börnum er svipuð að fjölda og yfir sama tímabil í fyrra, en 4% fleiri miðað við meðaltal síðustu þriggja ára á undan. Tilkynningum um stafræn kynferðisleg brot (kynferðisleg áreitni, brot gegn kynferðislegri friðhelgi og barnaníð) voru færri en yfir sama tímabil í fyrra en fjölgar um 5% samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára á undan.
Meðalaldur brotaþola er 23 ár, og þar af 44% yngri en 18 ára. Um 87% brotaþola eru konur. Meðalaldur grunaðra er 34 ár og var 96% þeirra karlar, og 67% á aldrinum 18-45 ára.
Hefur þú eitthvað að óttast?
Hafin er ný vitundarvakning í samvinnu Taktu skrefið, Neyðarlínunnar og lögreglunnar. Í henni eru þeir sem skoða, leita að, sýna, vista, eiga eða dreifa kynferðislegu efni af börnum til að hætta því. Ráði viðkomandi ekki við að gera það sjálfur, er hægt að fá aðstoð til að breyta hegðun sinni hjá Taktu skrefið. Markmiðið er að fá þá sem kunna að fremja slík brot til að velta fyrir sér hverjar afleiðingarnar gætu orðið fyrir þá sjálfa. Þar er m.a. spurt hvort áhorfandinn hafi eitthvað að óttast, hann minntur á að ef hann er að skoða kynferðislegt efni af börnum þá hefur hann ástæðu til en hegðuninni er hægt að breyta með aðstoð sérfræðinga hjá Taktu skrefið. Einnig má nálgast upplýsingar um aðstoð til að breyta hegðun sinni á 112.is
Þjónusta Taktu skrefsins er styrkt af félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu og heilbrigðisráðuneytinu. Fyrsta viðtal kostar einungis 3.000 kr.
Ríkislögreglustjóri birtir ársfjórðungslega tölfræðiupplýsingar um kynbundið ofbeldi, kynferðisbrot og heimilisofbeldi. Upplýsingarnar eru aðgengilegar á Kynbundið ofbeldi | Lögreglan (logreglan.is)
————
Nánari upplýsingar veita:
Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra
eyglohardar@logreglan.is
Guðbjörg S. Bergsdóttir, sérfræðingur á þjónustusviði ríkislögreglustjóra
gudbjorgs@logreglan.is