6 Júlí 2019 09:00
Áfram rýnum við í ritið Lögreglan í Reykjavík, sem kom út á þriðja áratug síðustu aldar, en þar er fjallað um böðulinn í Reykjavík, já ótrúlegt en satt. „Hér verður að geta eins starfsmanns, sem að vísu hvorki var lögregluþjónn, né næturvörður og hafði enga löggæzlu á hendi, en starf hans var þó beinlínis í þágu lögreglunnar. Það var böðullinn, og var það hans verk að leggja á líkamlegar hegningar, flengja menn og setja í gapastokk. Þó að þessi starfsmaður væri að vísu fastur, tók hann ekki föst laun, heldur var honum greitt eftir fastri gjaldskrá fyrir hvert verk, og var greiddur ríkisdalur silfurs fyrir að leggja á 10-15 vandarhagga hýðingu, 1 rd. 48 sk. fyrir 16-30 högg, 2 rd. fyrir 2X27 högg, 3 rd. fyrir 3X27 högg og 5 ríkisdalir fyrir kagstrýkingu. Var þetta góð borgun og allmikið að gera hér, en staðan var hins vegar í mjög litlu áliti, og menn sem hana höfðu, völdust því ekki af betri endanum. Böðull Reykjavíkur frá 1803-1838 hét Guðmundur Hannesson og var auknefndur „fjósrauður“; kona hans hét Margrét Guðmundsdóttir, en var kölluð „Manga með augað“, og bjuggu þau í svo nefndum Suðurbæ, sem lá vestast í Vonarstræti og þótti eitt óþverralegasta bælið í bænum. Með konungsbréfi 24. janúar 1838 var svo ákveðið, að þegar búið væri að koma upp typtunarhúsi í Reykjavík, skyldu líkamlegar refsingar afnumdar og vatns- og brauðshengingar takast upp í staðinn, og sama dag var gefið út konungsbréf um að byggja skyldi fangahús í Reykjavík, sem þó komst ekki í framkvæmd fyrr en 1872. Þar með var böðulsstarfi Guðmundar lokið, en hann sat þó ekki auðum höndum, því árið 1836 hafði hann verið skipaður fastur sótari fyrir bæinn og jafnframt salernishreinsari. “