28 Júlí 2010 12:00
Ríkislögreglustjóri hefur beint því til lögregluembættanna, lögreglumanna og tollgæslu, að leggja sérstaka áherslu á eftirlit með sölumönnum fíkniefna í aðdraganda mestu ferðahelgar ársins. Til að styrkja þetta eftirlit hefur ríkislögreglustjóri kallað til starfa flokk rannsóknarlögreglumanna úr fíkniefnadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sem hefja störf frá og með morgundeginum 29. júlí. Þeim til aðstoðar verða tollverðir með fíkniefnaleitarhunda og verður þessi löggæsla yfir alla verslunarmannahelgina um allt land. Nú er sérstaklega fylgst með því hvort fíkniefni séu í póst- og vörusendingum en þegar nær dregur helginni verður eftirlitinu beint að umferðarmiðstöðvum þar sem ferðalög margra byrja og eftir það á stöðum þar sem margir koma saman.
Lögreglumenn úr sérsveit ríkislögreglustjóra verða með lögregluliðunum í Vestmannaeyjum og á Akureyri um verslunarmannahelgina. Þá verða lögreglumenn frá Selfossi í þyrlu Landhelgisgæslunnar við umferðareftirlit um landið samkvæmt samningi ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslunnar.
Lögreglan óskar öllum góðrar verslunarmannahelgar og beinir því til þeirra sem hyggja á ferðalög að sýna tillitssemi og aðgát.