30 Mars 2008 12:00
· Hefur þú áhuga á því að starfa á krefjandi en jafnframt spennandi starfsvettvangi?
· Hefur þú öðlast reynslu af lífinu?
· Hefur þú þekkingu á ólíkum menningarheimum?
· Er tungumálakunnátta þín, umfram kunnátta í ensku og Norðurlandamálum, góð?
· Hefur þú lokið framhaldsnámi sem gefur þér a.m.k. 68 einingar eða hefur þú starfsreynslu sem jafna má til slíks náms?
· Hefur þú stundað iðnnám eða annað fagnám?
· Hefur þú stundað háskólanám?
· Ert þú í góðu andlegu jafnvægi?
· Ert þú í góðu líkamlegu formi?
Ef þetta á við þig, gæti verið að lögreglustarfið myndi henta þér sem starfsvettvangur.
Auglýst hefur verið eftir nýnemum til að stunda nám við grunnnámsdeild Lögregluskóla ríkisins. Leitað er eftir skynsömu, jákvæðu, hraustu og reglusömu fólki, konum jafnt sem körlum, sem eiga auðvelt með mannleg samskipti.
Umsóknarfrestur um skólavist rennur út þann 25. apríl n.k., allar nánari upplýsingar um inntökuskilyrði, inntökupróf og umsóknarferli er að finna hér á Lögregluvefnum. Einnig má leita upplýsinga með því að senda tölvupóst á netfangið valnefnd@tmd.is.