2 Desember 2008 12:00
Tæplega átta hundruð ökumenn hafa verið stöðvaðir undanfarna daga á ýmsum stöðum á höfuðborgarsvæðinu í sérstöku umferðareftirliti sem lögreglan heldur nú úti í umdæminu. Enginn þeirra reyndist ölvaður og verða það að teljast mjög góð tíðindi. Ökumenn tóku þessum afskiptum almennt mjög vel en öflug sveit lögreglumanna var á vettvangi og því gekk eftirlitið að mestu snuðrulaust fyrir sig.
Um er að ræða átak gegn ölvunarakstri en markmið þess er að vekja athygli á þeirri hættu sem stafar af ölvunarakstri og hvetja fólk til almennrar varkárni í umferðinni. Minnt er á viðvörunarorðin Eftir einn ei aki neinn en þau eiga alltaf við. Átakið nær einnig til aksturs undir áhrifum fíkniefna en afleiðingar þess geta sömuleiðis verið skelfilegar.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu leggur nú áherslu á aukið sýnilegt eftirlit á og við stofnbrautir í umdæminu, inni í íbúðahverfum og við verslunarmiðstöðvar. Með þessu vill hún leggja sitt af mörkum til að íbúar og aðrir sem dvelja á höfuðborgarsvæðinu geti átt ánægjulegar stundir við jólaundirbúning á komandi vikum.
Þess má geta að önnur lögreglulið á Suðvesturlandi halda líka úti sérstöku umferðareftirliti af þessu tagi en um sameiginlegt átak þessara aðila er að ræða. Hinu skipulega eftirliti er haldið úti á ýmsum tímum sólarhrings og á mismunandi stöðum í umdæmunum. Sameiginlegu átaki lögregluliðanna á Suðvesturlandi lýkur um áramót.