10 Nóvember 2010 12:00
Síðastliðinn föstudag sendi lögreglan á Suðurnesjum út tilkynningu til íbúa í umdæminu að láta lögregluna vita ef það yrði vart við grunsamlegar mannaferðir. Var það gert vegna tíðra innbrota á heimili í umdæminu að undanförnu.
Fjöldi ábendinga og tilkynninga hafa borist lögreglunni og hefur þeim verið fylgt eftir. Síðastliðinn mánudag fékk lögreglan ábendingu um grunsamlegar mannaferðir í íbúðahverfi í Reykjanesbæ. Sú ábending leiddi til þess að tveir menn á þrítugsaldri voru handteknir, grunaðir um innbrot á heimili sem lögreglan hefur haft til rannsóknar. Við húsleit á dvalarstað mannanna fundust munir sem lögreglan telur vera þýfi úr innbrotum.
Þeir sæta nú vikulöngu gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
Lögreglan hvetur fólk áfram til að hafa samband ef vart verður við grunsamlegar mannaferðir. Dæmið hér að ofan sýnir að ábendingar geta orðið til þess að brotamál upplýsist.
Ennfremur beinir lögreglan þeim tilmælum til fólks að ganga tryggilega frá heimilum sínum hvort sem það er í burtu í lengri eða skemmri tíma.
Hægt er að koma ábendingum/upplýsingum á framfæri við lögreglu í síma 112, 420-1800 eða netfang lögreglunnar á Suðurnesjum logreglan@dc.is