7 Júlí 2004 12:00
Ársskýrsla lögreglunnar í Reykjavík 2003
Lögreglan í Reykjavík hefur gefið út ársskýrslu sína fyrir árið 2003. Í henni er farið yfir helstu atriði í starfsemi embættisins á síðasta ári. Almennt gekk starfsemi lögreglunnar vel á árinu og náðist árangur í ýmsum málaflokkum. Auðgunarbrotum fækkaði um 13 % frá fyrra ári, þar af fækkaði innbrotum um 11 % og þjófnuðum um 16 %. Þá fjölgaði fíkniefnabrotum um 47 %. Fækkun innbrota og fjölgun fíkniefnabrota er að hluta til rakin til meira eftirlits lögreglu en lögreglumönnum sem sinna eftirliti á ómerktum bifreiðum var fjölgað á árinu. Ofbeldisbrot sem kærð voru til lögreglu voru 711 eða jafnmörg og árið áður. Alvarlegum líkamsárásum fækkaði en minni háttar líkamsárásum fjölgaði. Þá fækkaði tilkynntum nauðgunum um 20 %.
Umferðarlagabrotum fækkaði á árinu um 28 % frá fyrra ári en eru svipuð að fjölda og árin þar á undan. Afgangur varð á rekstri embættisins upp á 25 m.kr. á árinu en vegna halla frá fyrra ári var í árslok 15 m.kr. uppsafnaður halli á embættinu. Ársverk lögreglumanna voru 261 á móti 275 árið áður. Í árslok voru lögreglumenn 256 talsins og voru 487 íbúar á bakvið hvern lögreglumann á móti 445 íbúum árið 2002.
Árskýrsluna er að finna á heimasíðu lögreglunnar í Reykjavík.