6 Júlí 2021 13:23
Því miður hefur mikið verið að gera hjá lögreglunni á Vesturlandi þessa fyrstu 6 daga júlí mánaðar og sem dæmi þá hafa 5 líkamsárásir verið kærðar eftir helgina og eru til rannsóknar hjá okkur.
Miklar annir voru hjá okkur vegna bæjarhátíða og fjölda gesta á tjaldsvæðum víða í umdæminu. Nokkuð mikið var um útköll vegna hávaða og þá oft um að ræða vegna ölvunarástands fólks.
Afskipti okkar af áfengisneyslu ungmenna var nokkur og þá er haft samband við foreldra þeirra barna og barnaverndaryfirvöld, sem eru upplýst um öll afskipti lögreglu af börnum undir 18 ára aldri.
Komið var með ætluð fíkniefni á lögreglustöðina á Akranesi sem fundust á víðavangi. Efnið er til rannsóknar.
Fangaklefar fylltust aðfaranótt sunnudags og er það miður.
Umferðarslys eru nokkuð algeng í umdæminu og sum hver hafa verið mjög alvarleg en 65 ökumenn hafa verið kærðir á þessum 6 dögum fyrir of hraðan akstur þar sem ökuharði hátt upp í 150 km/klst. hefur verið mældur. 650 ökumenn hafa verið myndaðir við hraðakstur af hraðamyndavélum sem eru staðsettar víðs vegar um landið og á Höfuðborgarsvæðinu, en úrvinnsla þeirra brota fer fram hjá Lögreglustjóranum á Vesturlandi. Þessir ökumenn fá senda sekt vegna brotanna.
Sumir hverjir sem hafa verið myndaðir við hraðaksturinn eru með farsíma í hönd og þá bætist við sekt fyrir það brot. Nokkrir ökumenn hafa verið kærðir fyrir notkun á farsíma við akstur og eru þá sektaðir um 40.000kr.
Ökumenn án réttinda, einnig þeir sem hafa verið sviptir ökuleyfi hafa verið stöðvaðir og háar sektir eru við þeim brotum.
Athugasemdir hafa verið gerðar við vanbúin ökutæki í umferð og var ökumaður stöðvaður fyrir hraðakstur og var sá á nagladekkjum og fær hann 40.000kr. sekt til viðbótar við hraðasektina.
Margir ökumenn eru með stóra eftirvagna en ekki með réttu hliðarspeglana til þess að sjá aftur fyrir sig. Þetta skapar hættu fyrir aðra umferð eins og gefur að skilja og dæmi er um að ekið hafi verið í veg fyrir neyðarakstursbíla í forgangsakstri þar sem ökumenn sjá ekki þá sem ætla að aka fram úr þeim.
5 ökumenn voru handteknir grunaðir um ölvun við akstur um síðustu helgi og 1 ökumaður var handtekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Ökumaður sem leið átti um Borgarnes sofnaði við aksturinn og ók niður ljósastaur og á rafmagnskassa. Ekki urðu slys á fólki sem betur fer.
Borið hefur á því að ökumenn stoppi ekki við gangbraut þar sem gangandi vegfarendur eru á ferð yfir eða eru að bíða til þess að komast yfir og er sektin við því broti 30.000kr. Við höfum þurft að sekta nokkra ökumenn fyrir slík brot.
Svo er rétt að benda vegfarendum á að hætta er á að búfénaður geti verið á vegi og hefur í það minnsta verið ekið á 3 lömb það sem af er júlí.
Annars óskum við öllum velfarnaðar og biðlum til fólks að fara varlega á ferðum sýnum um landið.