5 Ágúst 2018 14:18
Nokkur erill var hjá lögreglunni síðustu nótt og gistu 5 fangageymslur eftir gærkvöldið og nóttina. Einn þeirra tók árabát og réri útá höfnina og þurftu lögreglumenn að fara á báti til að sækja hann. Hann var áberandi ölvaður, brást illa við afskiptum lögreglu og var handtekinn. Annar áreitti unga konu á bílastæði í dalnum kynferðislega með því að þukla á henni. Vitni voru að atvikinu og var hinn grunaði handtekinn. Ekki liggur fyrir kæra í málinu. Sá þriðji er grunaður um rúðubrot í félagsheimili ÍBV. Hinir tveir sátu inni vegna ölvunar og óspekta í Herjólfsdal.
Fíkniefnamálum fjölgaði frá því í gær og eru þau orðin 31 talsins sem er svipaður fjöldi og í fyrra. Mest eru þetta svokölluð neyslumál en í einhverjum þeirra er grunur um sölu. Efnin sem haldlögð hafa verið eru kókaín, amfetamín, kannabis, E-töflur og MDMA. Eins og áður hefur komið fram eru 6 lögreglumenn sem sinna þessu fíkniefnaeftirliti auk 4 fíkniefnaleitarhunda.
Enn mun bætast við fjölda gesta í dag og mun Herjólfur flytja um 1700 manns til Eyja sem bætast við þann fjölda sem fyrir er. Það er áætlað að á brekkusöngnum í kvöld verði um 15 þúsund manns.
Spáð hefur verið nokkrum vindi í Vestmannaeyjum í dag og eru lögregla og þjóðhátíðarnefnd með viðbragðsáætlun vegna þess. Á samráðsfundi með viðbragðsaðilum kl.13:00 í dag var farið vandlega yfir stöðuna. Ef tjöld fara að fjúka verða gestir aðstoðaðir við að komast í skjól.
Vindhraði er nú um 10 m/sek í hreinni austanátt og samkvæmt veðurstofu gæti vindhraði farið mest upp í 16 m/sek þegar líður á daginn. Lögreglan beinir því til þjóðhátíðargesta að huga að tjöldum sínum og festa tryggilega.