27 Desember 2018 11:19
Neyðarlínu barst í morgun kl. 09:42 tilkynning um að bifreið hafi verið ekið út af brúnni yfir Núpsvötn, í gegn um vegriðið þar og niður á áraurana þar fyrir neðan. Björgunarlið er komið á vettvang frá nálægum þéttbýliskjörnum og fleiri eru að lenda á vettvangi. M.a. 2 þyrlur LHG. Upplýst er að 7 manns voru í bifreiðinni og af þeim eru þrír látnir. Hinir 4 eru alvarlega slasaðir.
Stjórnstöð almannavarna á Suðurlandi hefur verið virkjuð í Björgunarmiðstöðinni við Árveg á Selfossi. Suðurlandsvegur er lokaður og ljóst að svo verður eitthvað fram eftir degi vegna vinnu við björgun og rannsókn vettvangs. Engin hjáleið er í boði framhjá vettvangi.