28 Ágúst 2018 10:18
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu var kölluð að skemmtistað í miðborginni á aðfararnótt sunnudagsins, vegna slagsmála inni á staðnum. Þegar að var komið var ljóst að tveir af dyravörðunum höfðu orðið fyrir árás. Í viðtölum við vitni kom fram að tveir menn sem hafði verið vísað af staðnum, höfðu komið aftur með fleiri menn með sér og ráðist þar á tvo dyraverði. Annar dyravarðanna, karlmaður á fertugsaldri, var mikið slasaður eftir árásina og var fluttur strax á spítala þar sem hann dvelur enn.
Fjórir menn, á þrítugs- og fertugsaldri, eru grunaðir um árásina og voru þeir handteknir síðar á sunnudeginum. Vegna alvarleika málsins var ákveðið að óska eftir að þeir sættu gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar hagsmuna. Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu lögreglustjóra um tveggja vikna gæsluvarðhald yfir mönnunum fjórum. Rannsókn málsins miðar vel áfram en ekki er hægt að gefa frekari upplýsingar um það á þessari stundu.