8 Mars 2024 12:36
Í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna sem er nýttur um heim allan til að minna á mikilvægi kynjajafnréttis. Eitt af hlutverkum lögreglunnar er að „stemma stigu við afbrotum og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgaranna og ríkisins.“ Í löggæsluáætlun 2019 til 2023 var rík áhersla á afbrotavarnir gegn kynbundnu ofbeldi þ.m.t. heimilisofbeldi, kynferðisbrotum, mansali auk vernd barna.
Árið 2023 var tilkynnt um 521 kynferðisbrot til lögreglunnar og 1131 tilvik heimilisofbeldis. Þegar skoðuð eru niðurbrot niður á einstök embætti kemur í ljós að fjöldi tilkynntra brota skiptist ekki niður í samræmi við íbúafjölda í einstökum embættum. Til að átta sig á hvort skýringin væri tíðni brota eða tilkynninga var tekin ákvörðun um að óska eftir að rannsóknin Áfallasaga kvenna yrði brotin niður eftir landshlutum, sjá hér. Rannsóknin hófst 2018 og tóku um 30% kvenna á Íslandi þátt og endurspeglaðu vel konur á Íslandi með tilliti til aldurs, menntunar, tekna og búsetu.
Helstu niðurstöður eru að fjórar af hverjum tíu konum á Íslandi hafa orðið fyrir kynferðislegu eða líkamlegu ofbeldi og um helmingur kvenna hefur upplifað einelti. Lítill munur var á milli landshluta, en var lífsalgengni ofbeldis lægst á Austurlandi og Vesturlandi, eða 35% og hæst á Reykjanesi, eða 41%. Lífsalgegni eineltis var hæst á Vestfjörðum (56%) og lægst á Vesturlandi (50%).
Var það mat skýrsluhöfunda að kerfisbundnar forvarnir gegn ofbeldi og einelti séu mikilvægar á öllu landinu og einnig aukið aðgengi þessara kvenna að stuðningi og meðferð eftir áföll innan heilbrigðiskerfisins.
Unnið er að því að efla svæðisbundið samráð á landsvísu gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á vegum lögregluembættanna og lykilsamstarfsaðila. Meginþorri sveitarfélaga eru komin með bakvaktir barnaverndar og félagsþjónustu vegna heimilisofbeldisútkalla til að styðja brotaþola og fjölskyldu á vettvangi. Unnið er að því að bæta áhættumat lögreglunnar á alvarlegu og ítrekuðu ofbeldi og þróa þverfagleg áhættumatsteymi til að styðja og vernda þolendur sem metnir eru í mestri hættu.
Heilbrigðisstofnanir eru oft fyrsti viðkomustaður fólks í ofbeldismálum. Unnið er að því að innleiða nýtt verklag í heilbrigðisþjónustu vegna heimilisofbeldis og kynferðisbrota. Í verklaginu felst m.a. þjónusta ofbeldisteymis á bráðamóttöku Landspítalans, tilvísun þolenda í áfallateymi og eftirfylgnisamtöl við brotaþola og sakborninga í kynferðisbrotamálum. Þann 18. mars verður haldin ráðstefna um aukna samvinnu lögreglu og heilbrigðisþjónustu undir heitinu „Á ég að gera það?“
Nálgast má upplýsingar um birtingarmyndir ofbeldis á 112.is og ætíð er hægt að tilkynna mál til lögreglunnar með því að hafa samband í síma 112.