18 September 2024 16:08
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu, með aðkomu embætta ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara, tók nýverið þátt í viðamikilli alþjóðlegri lögregluaðgerð þar sem aflað var upplýsinga af vefþjónum, sem hýstu dulkóðaðan samskiptamiðil sem var notaður fyrir skipulagða brotastarfsemi. Áðurnefnda vefþjóna var að finna bæði á Íslandi og í Frakklandi, en um var að ræða samræmdar aðgerðir í níu löndum með fulltingi Europol og Eurojust, en hinar þjóðirnar voru Ástralía, Bandaríkin, Írland, Ítalía, Holland, Kanada og Svíþjóð. Um fimmtíu manns hafa þegar verið handteknir í tengslum við rannsókn málsins, flestir í Ástralíu og á Írlandi, en enginn hérlendis. Greint var frá málinu á blaðamannafundi í Haag í Hollandi í morgun, en fréttatilkynningu Europol vegna þessa má lesa hér neðar.