24 Desember 2007 12:00
Í nótt sem leið var ökumaður um tvítugt stöðvaður af lögreglu á Ísafirði. Hann er grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna. Manninum var sleppt lausum eftir að viðeigandi sýni höfuð verið tekin, leit í viðkomandi bifreið og að yfirheyrslu lokinni. Manninum var gert að hætta akstri.
Þetta er þriðji ökumaðurinn á undanförnum fjórum dögum sem lögreglan á Vestfjörðum hefur stöðvað vegna gruns um inntöku fíkniefna.
Lögreglan á Vestfjörðum hefur verið með aukið umferðareftirlit undanfarið m.a. með tilliti til ástands ökumanna. Þessu eftirliti mun verða fylgt eftir áfram næstu daga.
Lögreglan vill minna á að akstur og áfengi fara aldrei saman og því síður inntaka fíkniefna. Rétt er að minna á að líkami manna er lengi að vinna úr fíkniefnum sem tekin eru inn, hvort heldur með reyk eða öðrum hætti. Skv. nýlegri breytingu á umferðarlögum mega engin ólögleg fíkniefni finnast í sýnum sem tekin eru úr ökumönnum. Ökuleyfissvipting og fjársekt liggja við slíkum brotum.