9 Ágúst 2012 12:00
Til að umferðin gangi vel fyrir sig er mikilvægt að allir ökumenn virði umferðarlögin. Á þessu er stundum misbrestur og dæmi um það er karl á þrítugsaldri sem lögreglan stöðvaði á Miklubraut, rétt austan Grensásvegar, í Reykjavík um fimmleytið síðdegis í gær. Sá ók veghefli og fór eðlilega hægt yfir. Olli þetta nokkrum vandræðum og tafði fyrir umferð en maðurinn var látinn færa veghefilinn af veginum. Minnt er á að allvíða eru sérstakar takmarkanir vegna hægfara ökutækja og á það m.a. við um Miklubraut. Umferð þeirra er bönnuð á tilteknum tíma virka daga, bæði á morgnana og síðdegis, og er það auglýst skilmerkilega á umferðarmerkjum. Því er svo við að bæta að ökumanni veghefilsins var leyft að halda för sinni áfram með tækið þegar klukkan var orðin sex.