27 Apríl 2023 16:07
Átján ára piltur var í dag í Héraðsdómi Reykjaness úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 24. maí á grundvelli almannahagsmuna að kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á andláti karlmanns á þrítugsaldri í Hafnarfirði í síðustu viku. Tveimur öðrum piltum, sem báðir eru yngri en 18 ára, var enn fremur gert að sæta vistun á vegum barnaverndaryfirvalda í tengslum við málið, sömuleiðis til 24. maí. Síðarnefndu piltarnir hafa báðir kært úrskurðinn til Landsréttar.
Allir þrír hafa sætt gæsluvarðhaldi frá því að málið í Hafnarfirði kom upp.
Ekki er hægt að veita frekari upplýsingar um rannsókn málsins að svo stöddu.