28 Mars 2021 08:11
Skýrslan Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2019 er komin út. Í skýrslunni er fjallað um tíðni afbrota á höfuðborgarsvæðinu, en markmiðið er m.a. að halda árlega skrá yfir afbrot í umdæminu og mæla þróun í afbrotatíðni milli ára.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 9.663 tilkynningar um hegningarlagabrot árið 2019 sem innan við 1% fjölgun tilkynninga frá 2018. Skráðum umferðar- og sérrefsilagabrotum fækkaði árið 2019 miðað við fyrra ár. Alls voru skráð tæplega 41 þúsund umferðarlagabrot á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Umferðarlagabrotum hefur farið fjölgandi ár frá ári frá 2015 og hafa aldrei verið fleiri frá því samræmdar skráningar hófust en árið 2018. Árið 2019 snérist þessi þróun þróun við og fækkaði umferðarlagabrotum þá um 9%. Það sama á við um sérrefsilagabrot. Árið 2019 voru skráð tæplega 4.000 sérrefsilagabrot og fækkaði slíkum brotum um tæp 4 prósent á milli ára. Sérrefsilagabrotum fjölgaði mikið árið 2017 en fjöldi þeirra hefur haldist svipaður síðan.
Auðgunarbrot voru um það bil helmingur hegningarlagabrota árið 2019 og fjölgaði slíkum brotum um þrjú prósent á milli ára. Að meðaltali bárust rúmlega 400 tilkynningar um auðgunarbrot á mánuði árið 2019, eða um 13 tilkynningar á dag. Árið 2019 bárust 1.029 tilkynningar um innbrot á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynningarnar voru um 8 prósent fleiri en þær voru að meðaltali árin 2016 til 2018. Oftast var tilkynnt um innbrot í heimahús, eða um 44 prósent tilkynninga.
Eitt manndráp var til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu árið 2019.Tilkynningum um kynferðisbrot fjölgaði árið 2019 en frá árinu 2016 hefur kynferðisbrotum fjölgað ár frá ári. Alls bárust 432 tilkynningar um kynferðisbrot árið 2019, sem gerir um 36 tilkynningar í hverjum mánuði. Þar af var tilkynnt um 146 nauðganir en slíkum tilkynningum fækkaði um tæp 20 prósent frá árinu 2018 en fjöldi þeirra var svipaður og meðalfjöldi brota 2016-2018. Tilkynningum um kynferðislega áreitni og blygðunarsemisbrot fjölgaði hlutfallslega mest, eða um 47 prósent milli ára. Árið 2019 voru skráð 1.266 ofbeldisbrot á höfuðborgarsvæðinu, þar af voru 985 tilkynningar vegna minniháttar líkamsárása eða 78% allra ofbeldisbrota. Árið 2018 voru flest ofbeldisbrot skráð á höfuðborgarsvæðinu frá því að samræmdar skráningar hófust en brotum árið 2019 fækkaði aftur um tæp 5%.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og tollgæslan lögðu hald á minna magn fíkniefna árið 2019 en árið áður. Oftast var lagt hald á kannabisefni og amfetamín. Mesta aukningin á magni fíkniefna sem haldlagt var á milli ára var á amfetamíni en lagt var hald á tæp 15,8 kg af amfetamíni árið 2019 samanborið við 3,4 kg árið á undan.