2 Apríl 2024 14:33
Að venju var ýmislegt að fást við á páskavaktinni, en tuttugu og fjórir ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu. Þá var tilkynnt um tuttugu líkamsárásir, þar af fimm alvarlegar, og farið var í nálægt tíu útköll vegna heimilisofbeldis. Talsvert var um þjófnaði, en m.a. voru fimm innbrot tilkynnt til lögreglu. Um var að ræða tvö innbrot á heimili, tvö í fyrirtæki og eitt í geymslu.
Í síðustu viku sögðum við frá því að á þessum árstíma væru ökumenn gjarnan farnir að „kitla pinnann“ og þess höfðu sést merki í umferðinni undanfarið. Því miður hélt hraðaksturinn áfram í umdæminu um páskana, en á fjórða tug ökumanna voru teknir fyrir þær sakir. Tæplega helmingur þeirra voru ökumenn sem eru 20 ára og yngri. Grófasta hraðakstursbrotið átti sér stað á Hafnarfjarðarvegi í Garðabæ, en þar mældist bíll á 188 km hraða. Ökumaðurinn, 18 ára piltur, var færður á lögreglustöð og sviptur ökuréttindum til bráðabirgða. Hann má búast við ákæru fyrir þennan ofsaakstur.
Loks má nefna að fjarlægð voru skráningarnúmer af um þrjátíu bílum í umdæminu, en þeir voru ýmist ótryggðir eða óskoðaðir.