30 Október 2023 16:12
Tuttugu og átta ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Tuttugu og einn var stöðvaður í Reykjavík, fimm í Hafnarfirði og tveir í Kópavogi. Fjórir voru teknir á föstudagskvöld, átta á laugardag, ellefu á sunnudag og fimm aðfaranótt mánudags. Þetta voru tuttugu og sjö karlar á aldrinum 17-59 ára og ein kona, 18 ára. Tveir þessara ökumanna höfðu þegar verið sviptir ökuleyfi, en annar þeirra var á stolnum bíl.
Tíu líkamsárásir voru tilkynntar um helgina, en í fjórum tilfellum var um heimilisofbeldi að ræða. Nokkur þjófnaðarmál komu til kasta lögreglu, m.a. fjögur innbrot. Þá bárust samtals fimmtán tilkynningar um umferðarslys og/eða umferðaróhöpp í umdæminu, auk þess sem einn ökumaður var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða fyrir hraðakstur. Sá ók á 128 km hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 60.