1 Júlí 2014 12:00
Ásgeir Þór Ásgeirsson, Jóhann Karl Þórisson og Margeir Sveinsson eru nýir aðstoðaryfirlögregluþjónar hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en setning þeirra í embætti er til eins árs. Ásgeir Þór er stöðvarstjóri á lögreglustöð 3, Jóhann Karl stöðvarstjóri á lögreglustöð 1 og Margeir er stöðvarstjóri á lögreglustöð 2, en þremenningarnir taka formlega til starfa í dag, 1. júlí. Alls eru fimm lögreglustöðvar í umdæmi Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, en aðstoðaryfirlögregluþjónarnir Árni Þór Sigmundsson og Kristján Ólafur Guðnason eru stöðvarstjórar á lögreglustöðvum 4 og 5. Kristján Ólafur hefur jafnframt verið yfirmaður umferðardeildar LRH, en við því starfi tekur nú Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og fyrrverandi stöðvarstjóri lögreglustöðvar 3. Hinir nýju aðstoðaryfirlögregluþjónar eiga allir að baki langan feril innan lögreglunnar og búa yfir mikilli reynslu, sem mun koma að góðu notum í störfum þeirra. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu býður aðstoðaryfirlögregluþjónana Ásgeir Þór, Jóhann Karl og Margeir velkomna til starfa.
Lögreglustöð 1 – Grensásvegi 9, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum austan Snorrabrautar til vestan Elliðaáa. Stöðvarstjóri: Jóhann Karl Þórisson.
Lögreglustöð 2 – Flatahrauni 11, Hafnarfirði – sími 444-1000. Sinnir verkefnum í Hafnarfirði, Garðabæ og á Álftanesi. Stöðvarstjóri: Margeir Sveinsson.
Lögreglustöð 3 – Dalvegi 18, Kópavogi – sími 444-1000. Sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti. Stöðvarstjóri: Ásgeir Þór Ásgeirsson.
Lögreglustöð 4 – Vínlandsleið 2-4, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum í Mosfellsbæ, Grafarholti, Grafarvogi, Árbæ, Norðlingaholti, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Stöðvarstjóri: Árni Þór Sigmundsson.
Lögreglustöð 5 – Hverfisgötu 113-115, Reykjavík – sími 444-1000. Sinnir verkefnum vestan Snorrabrautar og á Seltjarnarnesi. Stöðvarstjóri: Kristján Ólafur Guðnason.
Sólarhringslöggæsla er á höfuðborgarsvæðinu alla daga ársins. Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu ber að hringja í 112.
Efri röð: Aðstoðaryfirlögregluþjónarnir Ásgeir Þór Ásgeirsson, Margeir Sveinsson, Kristján Ólafur Guðnason, Árni Þór Sigmundsson, Jóhann Karl Þórisson og Ómar Smári Ármannsson.
Efri röð: Aðstoðaryfirlögregluþjónarnir Ásgeir Þór Ásgeirsson, Margeir Sveinsson, Kristján Ólafur Guðnason, Árni Þór Sigmundsson, Jóhann Karl Þórisson og Ómar Smári Ármannsson.
Neðri röð: Jón HB Snorrason aðstoðarlögreglustjóri, Stefán Eiríksson lögreglustjóri, Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri og Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn.
Neðri röð: Jón HB Snorrason aðstoðarlögreglustjóri, Stefán Eiríksson lögreglustjóri, Hörður Jóhannesson aðstoðarlögreglustjóri og Egill Bjarnason yfirlögregluþjónn.